rss icon RSS Feed   apple podcasts icon Apple Podcasts  spotify icon Spotify   soundcloud icon Soundcloud   youtube icon YouTube


Results for 2018

2018 Jóla special

Það er hátíðarstund í þessum jólaspecial Váfuglsins.

Jólin renna í garð á vel smurðum vagni sem enginn fær stoppað sama hversu mikið er reynt. Þessu fagna Váfuglsmenn enda lítið annað hægt að gera í stöðunni annað en að beygja sig niður og þrífa stígvél jóla-yfirboðaranna með tungunni og þakka bara fyrir 1.500 króna Bluetooth hátalarann.

Saga jólakræsinganna verður rekin. Jólabjórinn er aðeins smakkaður og jólahefðir atvinnulífsins eru sérstaklega teknar fyrir, enda nægir ekki lengur að halda jólin einungis í okkar aumu persónulegu lífum.

Vá-völvan er á sínum stað og segir okkur hverning vegurinn liggur gegnum árið 2019.

Vol. 24 - Grikkir & Gott

Váfuglinn vaknar upp úr allsherjarþynnku Hrekkjavökuhátíðarinnar og sendir frá sér spánnýjan og spúkí þátt.

Arnaldur, Stefán og Lárus, nýr tæknimaður Váfuglsins, herja miskunnarlaust á samtímann eins og draugar fortíðar. Airwaves hátíðin er sett í samhengi við hreyfiorku sögunnar hvers tannhjól mylja allt á endanum, sérstaklega þá öll áform um anga hátíðarinnar á Akureyri.

Eins og venjulega er líka tekið á viðkvæmu (og hörðu) málefnunum - í þetta sinn er það heróínfaraldurinn sem er ræddur á svo rólegum nótum að það mætti halda að við værum stödd í ópíumgreni.

Vol. 23 – Leirmaður / Leikmaður

Rapparinn og Siggi Hallinn, Emmsjé Gauti, mætti í heimsókn í Váfugls-stúdíóið til að tala um styttuna Leirfinn, einbýlishúsavegginn í Breiðholti og nasistahamborgara. Sömuleiðis er farið í saumana á því hvernig er best að heilsa óljósu fólki út á götu. Mögulega skemmtilegasti Váfugl ársins.

Í seinni hluta þáttarins gerum við tilraunir með minimal elektró-undirspil fyrir ljúfari hlustunarupplifun. Einhverskonar smellir fara þá að heyrast í upptökunni. Eru þetta tæknilegir örðugleikar? Eða eru þetta mögulega bara rimlarnir á stunna shadesunum okkar að rekast í hljóðnemann? Smellið ykkur á nýjan Váfugl.

Vol. 22 – Sítrónuuppgjörið

Váfuglinn snýr aftur úr lamandi sumarfríi. Arnaldur og Stefán hafa báðir ferðast út fyrir landsteinana og gera grein fyrir menningunni sem þeir fundu á ferðum sínum. Alþjóðlegur áhugi á veðurfyrirbrigðinu sem við köllum rigningu verður skoðaður sérstaklega og hvernig sá sami áhugi hefur frelsað margan manninn frá erfiðum félagslegum aðstæðum.

Við ræðum þrúgandi guðsótta færeyskra ungmenna, kaffimenningu á Ítalíu og sítrónutengda glæpastarfsemi þar í landi.

Að lokum beinum við augum okkar að þeirri standandi menningarveislu sem finna má í Laugardalshöll allra landsmanna. Hvar annars staðar gæti álfkarl með sílíkoneyru smitað þig af vægum húðsjúkdóm á meðan landsþekktir aðilar humma og flauta slagara með Megasi?

Vol. 21 – Gott kakó

Váfugl dagsins er óhræddur við að taka á stóru málunum bæði heima fyrir og úti í hinum stóra heimi. Við kynnum okkur úrlausn erfiðra deilumála með aðstoð sýnishorna úr bíómyndum og förum svo rakleiðis í Kaupfélagið á Sauðárkróki.

Um leið og vorið heldur loks innreið sína í Vaglaskóg fyrir norðan, skoðum við stöðuna í menningarmálum á Íslandi yfir eldglóandi, hráum kakóbolla. Við ljúkum svo flugferðinni hjá hinni eldhressu Guðrúnu í borg lystisemdanna, Las Vegas. Viva Las Vegas!

Glöggir áheyrendur kunna ef til vill stundum að heyra bank í ofnalögnum í bakgrunninum. Eru "laumufarþegar" í kjallaranum á upptökuveri Váfuglsins?

Vol 20. – Börnin í Blesugróf

Það vita margir að hið vanskapaða hross Sleipnir steig niður einum af ónáttúrulega mörgum hófum sínum austur á Ásbyrgi. Þar bjó hann til klettavegg sem fólk elskar að tjalda við hliðina á. Það sem færri vita er að annar hryllilegur angi neðan úr þessu "hrossi" kom niður í hjarta Reykjavíkur og skapaði Skeifuna - þaðan kemur nafnið. Í dag er Skeifan merkileg verslunargata, menningarmiðstöð og ráðgáta.

En það eru fleiri ráðgátur sem verða á vegi Váfuglsins í þetta sinn. Hvar er „hið raunverulega Ísland“ að finna? Hver býr raunverulega í uppsveitum Skagafjarðar og hvað gerir fólk þar? Hvað varð um Guðmund eftir að hann kom við í hverfissjoppunni sinni í síðasta sinn?

Við opnum hjólageymsluna eftir þungbæran vetur og rúllum Gísla Marteini út. Hann fær að flakka alla leið í Blesugróf þar sem hann skröltir um og segir okkur sögu þessa alræmda hverfis. Það er líka rækjusamloka, pube í b0rger og margt, margt fleira.

Vol 19. - Söngur mjaldranna

Nú er þessi dásamlegi tími ársins þegar við göngum öll í einfaldri röð að svignandi hlaðborði lýðræðisins eins og svangir gestir í fermingarveislu. Hvað er okkar rækjusalat? Hvert dýfum við lúkunum? Váfuglinn skoðar sviptingar í sveitarstjórnarmálum landsins. Við skoðum nokkrar (mis)neikvæðar breytingar á borgarlandslaginu og rifjum það upp þegar Arnmjaldur ætlaði að verða pool höstler.

Við tökum svo flugið beint norður og veltum fyrir okkur morbid áhuga norðanmanna á því að upplifa sveltandi bóndadurga murka lífið úr hvor öðrum með steinhnullungum í sýndarveruleika.

Já, þetta eru sannarlega ótrúlegir tímar sem við lifum á.

Afmælis Special - 1 ár af hamingju!

"Partýbúðin kynnir: Váfuglinn! Nú í beinni útsendingu frá Café Milanó, þar sem hjarta Skeifunnar slær!

Mörg erfið mál bera á góma í þetta sinn - ársafmæli Váfuglsins, sveitastjórnakosningar (úff) og Skeifan sjálf. Gæðið ykkur á ylvolgum takes frá Arnaldi og Stefáni!

Vol 18. - Karnival í mottumars

Váfuglinn í þetta sinn er helgaður vitundarvakningarátökum og fallegustu helgistund í lífi sérhvers manns, fermingunni. Við skoðum Mottumars og athugum hvort læknastéttin sé raunverulega eitthvað með puttana í þessu átaki.

Við förum yfir þá dægradvöl sem stendur Íslendingum til boða nú þegar tekur að vora en pössum okkkur samt rækilega á þessum hættulega "carnie" frá Bournmouth. Menn segja að hann sé flinkur með butterfly-kutann.

Að lokum fjöllum við um hina guðdómlegu íslensku fermingarveislu með öllum sínum rækjusalötum og aspasréttum. Er kannski kominn tími til að endurnýja heitin?

Vol 17. - Kópverskir draumar

Váfuglinn tekur flugið beint inn í Kópavog í þetta sinn þar sem við kynnum okkur framkvæmdagleðina sem virðist einkenna góða menn með reiðufé í íþróttatöskum. Kópavogurinn er fullur af eldhugum í allskyns rekstri en ekki síst er það blómstrandi hótelrekstur. Við kynnum okkur nýjasta glæsihótel Kópavogs sem áður þjónaði stærsta sértrúarsöfnuði landsins. Vetrarólympíuleikarnir eru líka gerðir upp á eftirminnilegan hátt áður en við flögrum aftur á vit minninganna upp á Geitháls. Váfuglinn kannar loks hvernig nýtt eignarhald Fréttatímans gæti gagnast bágstöddum börnum.

Váfuglinn - Eini óháði miðill lýðveldisins!

Vol 16. - Hvítur á leik

Sannkölluð Góu-gleði gerir nú vart við sig hjá Váfuglinum. Við ræðum mjög svo breytilegan opnunartíma Vínbúða eftir dögum og staðsetningu í bæjarlandinu. Við tökum hús á Skáksambandinu enda alltaf glatt á hjalla á þeim bænum. Rúnturinn endar svo með góðu pube í b0rgerinn við Hlemm þar sem við bjóðum geðstirðum og ofbeldishneigðum strætóbílstjórum upp á sannkallaða veislu af keimlíkum austurlenskum mat.

Vol 15. - Tímamóta tal

Váfuglinn er að þessu sinni helgaður hátíðlegustu hátíð allra Íslendinga, Áramótum. Eftir að hafa afplánað nógu lengi í fjölskylduboði í einu af úthverfum borgarinnar er Váfuglinn loksins tilbúinn að keyra þetta djamm í gang.

Með kampavín í annarri, viskí í hinni og óþægilega stóran áramótavindil í munninum er árið 2017 gert upp á ógleymanlegan hátt. En Váfuglinn lifir ekki bara í fortíðinni heldur eru línurnar líka lagðar fyrir nýja árið.

Biblískur þáttur þar sem við brennum allt og svæfum borgina í svifryki.