rss icon RSS Feed   apple podcasts icon Apple Podcasts  spotify icon Spotify   soundcloud icon Soundcloud   youtube icon YouTube


Results for 2017

2017 Jóla special

Jólapeysur! Jólahlaðborð! Jólaskór!

Jólin nálgast óðfluga! Stressið og vinur þess kvíðinn, hríslast um nú bein landsmanna. sem ráfa á milli verslana til að kaupa allt sem augun lenda á í meira en þrjár sekúndur. Allt er þetta í vanstilltri viðleitni til að finna hina einu sönnu gjöf til að færa manneskjunni sem á allt og vantar ekkert.

Að þessu tilefni slær Váfuglinn upp í allsherjar Jóla-special þar sem flestir þættir jólanna eru ræddir af mikilli innsýn tveggja reynslubolta. En aðallega er rætt um vinnuveitendur, af einhverri ástæðu.

Vol. 14 - Sjoppulegir togarar

Váfuglinn er sjanghæaður um borð í rússneskan togara eftir að hafa verið að rúnta niðri við höfnina í alla nótt. Hvar eru reiðhjólin og Lödurnar geymdar?

Reiðhjólafarminum er landað í Árbænum þar sem menn kúka og sturta sig á sama tíma og skreppa í sjoppur - en Rækjusamlokan snýr einmitt aftur og hefur aldrei verið eins meta. Váfuglsmenn velta ítarlega fyrir sér hvaðan frummynd sjoppunar kemur.

Að lokum fær Gísli Marteinn svo uppreist æru og rúllar niður okkar eigin Las Vegas strip - Bankastrætið.

Vol. 13 - Safe space fyrir Zúista

Váfuglinn kom saman í litla læsta herberginu sínu þar sem Váfuglsmenn geta tekið upp hugsanir sínar í friði frá gagnrýni og öðru áreiti.

Í þetta sinn voru þær um hinn göfuga Facebookhóp "Strákahitting" sem breyttist mjög fljótlega í helsta vígi Hins-hægrisins á íslenska internetinu. Trúarbrögð voru til umræðu - en það kemur í ljós að trúarskoðanir þáttastjórnenda eru jafn ólíkar eins og í "... labba inn á bar" brandara.

Að lokum voru almenn öryggismál rædd af mikilli alvöru í kjölfar þess að Ríkislögreglustjóri droppaði flaming hot skýrslu á dögunum.

2017 Kosninga special

Váfuglinn tætir í sig íslensk stjórnmál í aðdraganda komandi kosninga í þessum upplýsandi, gagnsæja kosninga special. Þetta eru hin einu sönnu samræðustjórnmál. Í þættinum verða allir flokkarnir skoðaðir, menn og málefni gerð upp - til þess að ÞÚ þurfir þess ekki.

Afhverju myndast Sigmundur Davíð svona illa? Viljum við ekki öll sjá Albaníu-Valda borða stolna hot-wings? Hversu eldfim er íslenska krónan?

Váfuglinn svarar öllum spurningum kjósenda um menn og málefni flokkanna sem bítast um völdin á Íslandi árið 2017.

Vol. 12 - Líkamshryllingur og skyrglíma?

Váfuglinn kemur saman að nýju og vinnur úr uppsafnaðri heift með því að rífa í sig þá pólitísku spillingu sem gegnsýrir landið – eins og skyr. Ríkisstjórnin féll aðeins klukkustund eftir þær afhjúpanir sem þátturinn ber á borð. Við skoðum hópeflistilraunir ónefnds tískurisa og veltum fyrir okkur líkamshryllingi á samfélagsmiðlum. Að lokum tekur Váfuglinn sér varðstöðu um síðustu sjoppurnar í samfélagi mannanna.

Hefur þig einhverntíman langað meira í eitthvað en nýjan Váfugl?

VOL. 11 - Migos og menning í Mathöllinni

Váfuglinn flaug í Höllina á tónleika með rappsveitinni Migos og tók út stemminguna. Hefðu þeir kannski heldur átt að spila í Mat(ar)höllinni á Hlemmi? Í ekkert-svo-fasta liðnum "Það er pube í b0rgerinn minn" var Mathöllin einmitt tekin fyrir miskunnar- og vægðarlaust.

Váfuglinn rýndi líka í vandræðaganginn í kringum síkáta sjómannsvegginn en þar verða líklega allir götulistamenn landins mættir samtímis að spreyja andlitismyndir af ráðherrum á eftirlaunum. Að lokum skelltu Váfuglarnir sér svo í sérlega skemmtilegt og hámenningarlegt beikonpartí á Menningarnótt og snéru Subway Hjólinu™

VOL. 10 - Útihátíð á sterum

Nú þegar 10. áratugurinn hefur verið vakinn til lífsins með tilheyrandi vandræðagangi og sveitaballarómantík reyna Arnaldur og Stefán að greina hvað fór úrskeiðis. Er áhrifavöldum um að kenna? Eða er áhrifafólk kannski bara leiksoppar í þessum ljóta leik? Váfuglinn miðar hátt og beinir sjóðandi kjarnaoddum í átt að steranotkun í heimi íþróttanna.

Ekki einu sinni einkavæddur agile-her gæti stöðvað þennan Váfugl.

Vol. 09 - Krónískir meistaraverkir

Eftir að hafa baðað sig í skólpi og dömubindum frá Degi borgarstjóra, gerir Váfuglinn upp nýafstaðna Young Thug tónleika, a.k.a. Kronik Live ásamt fleirri. Hugmyndafræðilegur ágreiningur skáta, femínista og fleiri verður tæklaður auk þess sem við brókum rauðhærðan, bólugrafinn skátaforingja. Síðast en ekki síst skoðum nýjasta framlag Joey Christ til rappsenunnar á Íslandi.

Vol. 08 - Byssubófar og bangerar feat. Arnar Freyr

Arnar Freyr Frostason úr rapptvíeykinu Úlfur Úlfur er gestur Váfuglsins í þetta sinn. Við ræddum við hann um Kaupfélag Skagfirðinga, froðudiskó og rappvídjó. Þá var einnig uppruni Priksins reyfaður lauslega.

Vol. 07 - Sumarsólstöður á Hverfisgötu feat. Auður Ástráðsdóttir

Solstice hátíðin er gerð upp þessa vikuna, tími til kominn. Auður Ástráðsdóttir kíkti í heimsókn (á eigið heimili) og ræddi meðal annars náttúruhippa að kúka í kross, Dag B að dúndra í sig rjóma í Hel og hryssingslegan sunnudag í Laugardalnum. Rækjusamlokan er á dagskránni og þar er nautið Gabríel aðallega rætt (RIP Gabríel, our boy). Hverfisgatan er tekin fyrir í Gísla Marteini þáttarins þar sem eldgamla Berlínarhjólið hans Gísla kremur morfínsprautur á leið sinni niður þessa sjarmerandi götu eymdarinnar.

Vol. 06 - Kristal Poppin' feat. Júlía Hermannsdóttir

Váfuglinn er ekki einn á ferð í þetta sinn - í hljóðverið mætti Júlía Hermannsdóttir og ræddi við okkur um kassettusölu sína í fangelsum landsins, mýtuna um krúttsenuna og hvernig algóriþmar hafa gert henni lífið leitt. Stefán reyndi að lesa Viðskiptablaðið með misjöfnum árangri. Pop a bottle!

Vol. 05 - Sumargrill og vídjóveisla hjá tannlækninum

Er eðlilegt að horfa á vídjó með tannlækninum sínum? Myndirðu borða gamla mæjónessamloku?

Eftir nokkur skakkaföll, eins og springandi endajaxla og gjaldþrot ónefnds Váfugls eftir að hann reyndi að halda Shaggy tónleika í miðju góðæri, er hér kominn enn einn glóðvolgur og ilmandi Váfugl. Í þættinum er meðal annars rætt um hina þunnu línu á milli framburðar á orðunum "klán" og "klám", birtingarmynd fánalitanna í mæjónessalötum, veðrið og gulltennur.

Vol. 04 - Grískt sumar á Skólavörðustíg

Gyros, Pizzur, Skólavörðustígur og NES Classic. Hvað eiga þessir hlutir sameiginlegt? Líklega fátt. Stefán ræðir um flóttamenn, ferðamál á Grikklandi og gyros. Staða pizzastaða á landinu er yfirfarin og Skólavörðustígurinn er krufinn til mergjar í nýjum föstum lið. Að lokum ræða Stefán og Arnaldur retro-nördisma og NES Classic.

Váfuglinn nú á iTunes!

vafuglinn-itunes

Það gleður okkur að tilkynna að Váfuglinn er nú auðfundinn á iTunes. Mjög þægilegt og fínt. Þú færð meira að segja að vita af öllum nýjum þáttum.

Fljúgðu nú bara yfir í podcast appið á símanum þínum, eða í iTunes á tölvunni þinni og smelltu á SUBSCRIBE takkann! Þú gerir fátt merkilegra í þessari viku.

Váfuglinn vol.3

Váfuglinn hefur sig til flugs á ný eftir stutt hlé. Haukfrán augu Váfuglsins beinast að öryggis- og hlífðarbúnaði barna, hátæknivæddum ávaxtasafa og geisladiskum. Afhverju hatar fólk geisladiska? Getur fólk gerst áskrifendur að sjálfsvirðingu? Kynntur er til leiks nýr liður þar sem eldhús bæjarins eru tekin föstum tökum og krufin til mergjar.

Váfuglinn vol.2 - páska special

Váfuglinn beinir sjónum sínum að páskahátíðinni í þetta sinn og kemst meðal annars að því að páskarnir eru ekki hátíð ljóss og friðar (það eru víst jólin) og að á meðan við liggjum í sykurvímu eftir ómannlegt súkkulaðiát þá á sér stað mikil eymd á öðrum stöðum í heiminum. Váfuglinn fer síðan á eilítið hressari slóðir og ræðir Steven Seagal, en fljótlega nær myrkrið aftur völdum. Gleðilega páska!

Váfuglinn vol.1

Fyrsti þáttur Váfuglsins hefur raungerst í formi hljóðbylgja og er það mikið fagnaðarefni. Hér ræða þeir Arnaldur og Stefán meðal annars góð áhrif traumatizing kvikmyndareynslu á æsku sína, muninn á vonda og góða Sjoppumanninum™ og upprúllaðan ost á veitingastöðum þar sem gestum er gert að ganga inn um rennihurðir.