Rækjusalat

Váfuglinn hefur sig til flugs að nýju, með nýtt season af fuglinum góða. Í þessum fyrsta þætti fær rækjusalat og mæjónes að sitja í framsætinu og stjórna okkur eins og leiðtogi sértrúarsafnaðar.

Mæjónes hefur fylgt þjóðinni frá því löngu fyrir sjálfstæði - þaðan skreið það eins og löðrandi feitur jökull sem ruddist í gegnum stormasaga sögu þjóðarinnar á tuttugustu öldinni og alveg inn í þá tuttugustu og fyrstu. Á þessum tíma hefur þessi einfalda sósa dansað fram og til baka í stéttarvitund íslendinga: í fyrstu var hún aðeins á borðum þeirra allra ríkustu og veitti dásemdar kræsingum sinn hlaupkennda hjúp, svo var hún orðin fastur liður í öllum helsta skyndibita vor áður en hún gekk í endurnýjun lífdaga með innkomu hipstersins í íslenska menningu.

Vol. 25 - Ár svínsins

Eftir að hafa legið í leyni og beðið nýs árs hefur Váfuglinn sig aftur á flug og er tilefnið koma árs svínsins. Bílaleigur, vídeóleigur og jafnvel kjólaleigur er allt mjög góður business en eins og kemur fram í exposé rannsóknardeildar þáttarins er þarna ákveðin hula sem hægt er að svipta.

Framundan er svo stærsta partí ársins - þriggja daga veisla þar sem öll skilningarvit eru örvuð. Við erum auðvitað að tala um hina heilögu íslensku þrenningu: bakarísdaginn, hrossakjötsdaginn og akureyringadaginn.

2018 Jóla special

Það er hátíðarstund í þessum jólaspecial Váfuglsins.

Jólin renna í garð á vel smurðum vagni sem enginn fær stoppað sama hversu mikið er reynt. Þessu fagna Váfuglsmenn enda lítið annað hægt að gera í stöðunni annað en að beygja sig niður og þrífa stígvél jóla-yfirboðaranna með tungunni og þakka bara fyrir 1.500 króna Bluetooth hátalarann.

Saga jólakræsinganna verður rekin. Jólabjórinn er aðeins smakkaður og jólahefðir atvinnulífsins eru sérstaklega teknar fyrir, enda nægir ekki lengur að halda jólin einungis í okkar aumu persónulegu lífum.

Vá-völvan er á sínum stað og segir okkur hverning vegurinn liggur gegnum árið 2019.

Vol. 24 - Grikkir & Gott

Váfuglinn vaknar upp úr allsherjarþynnku Hrekkjavökuhátíðarinnar og sendir frá sér spánnýjan og spúkí þátt.

Arnaldur, Stefán og Lárus, nýr tæknimaður Váfuglsins, herja miskunnarlaust á samtímann eins og draugar fortíðar. Airwaves hátíðin er sett í samhengi við hreyfiorku sögunnar hvers tannhjól mylja allt á endanum, sérstaklega þá öll áform um anga hátíðarinnar á Akureyri.

Eins og venjulega er líka tekið á viðkvæmu (og hörðu) málefnunum - í þetta sinn er það heróínfaraldurinn sem er ræddur á svo rólegum nótum að það mætti halda að við værum stödd í ópíumgreni.

Vol. 23 – Leirmaður / Leikmaður

Rapparinn og Siggi Hallinn, Emmsjé Gauti, mætti í heimsókn í Váfugls-stúdíóið til að tala um styttuna Leirfinn, einbýlishúsavegginn í Breiðholti og nasistahamborgara. Sömuleiðis er farið í saumana á því hvernig er best að heilsa óljósu fólki út á götu. Mögulega skemmtilegasti Váfugl ársins.

Í seinni hluta þáttarins gerum við tilraunir með minimal elektró-undirspil fyrir ljúfari hlustunarupplifun. Einhverskonar smellir fara þá að heyrast í upptökunni. Eru þetta tæknilegir örðugleikar? Eða eru þetta mögulega bara rimlarnir á stunna shadesunum okkar að rekast í hljóðnemann? Smellið ykkur á nýjan Váfugl.